Frístund

Krakkaland - frístund í Snælandsskóla

Krakkaland

Krakkaland er frístundaheimili Snælandsskóla sem býður upp á frístundastarf eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur fyrir börn í 1.– 4. bekk. Frístundaheimili eru hluti af starfi grunnskólanna. Í daglegu starfi er lögð áhersla á frjálsan leik og óformlegt nám barna með virkri þátttöku í tómstundastarfi í öruggu umhverfi. Börnin eiga að fá tækifæri til að takast á við verkefni sem hæfa aldri þeirra og þroska. Áhersla er lögð á að flétta grunnþætti menntunar, sem eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun inn í daglegt starf. Öll börn óháð getu, þroska eða fötlun skulu eiga kost á að taka þátt í því starfi sem þar fer fram á sínum forsendum. Skipulag frístundar miðist við aldur og þroska barna í 1. – 4. bekk og skulu skólar gera ráðstafanir til að hvetja alla árganga til þátttöku. Samvinna frístundastarfs við íþrótta- og tómstundafélög og leikskóla miðar að því að gera vinnudag barna heildstæðan. Allt starfsfólk Krakkalands kemur fram við börnin af virðingu og hlýju.


Innra starf

Starfið í Krakkalandi í Snælandsskóla er þríþætt. Í fyrsta lagi er almennt starf sem fram fer að loknum skóladegi fyrir öll börn, í öðru lagi er klúbbastarf sem stendur börnum í þriðja og fjórða bekk til boða og gæðastund sem er uppbrot á venjulegum skóladegi fyrir börn í fyrsta og öðrum bekk, tvisvar í viku. 

Almennt starf

Almenn starfsemi Krakkalands er frá kl.13:10 til 17:00 á virkum dögum. Einnig er Krakkaland opið á skipulagsdögum, viðtalsdögum og öllum skertum dögum, nema tveimur dögum þegar skipulagsdagur er einnig í frístund. Fyrri skipulagsdagur er 12. október 2018 en sá síðari 19. mars 2019. Áhersla í daglegu starfi í Krakkalandi er á frjálsan leik fyrir börn og fjölbreytt framboð á hópastarfi. Frjáls leikur fer fram í húsnæði frístundar í F-Álmu skólans en hópastarf nýtir sér allt húsnæði skólans, meðal annars gamla íþróttasalinn, bókasafnið, hinar ýmsu stofur og matsal. Í hópastarfi eru notaðir svokallaðir kennaratímar en einnig eru starfsmenn Krakkalands með ákveðna hópa, t.d.ævintýrahóp, loom bönd eða föndurhópa. Utanaðkomandi aðilar koma reglulega í Krakkaland til að halda námskeið gegn þátttökugjaldi, t.d. er leiklistanámskeið á vegum Leynileikhússins og tennisnámskeið.

Klúbbastarf

Frá hausti 2015 hefur verið í boði sérstakt klúbbastarf fyrir börn í 4. bekk til að koma enn betur til móts við áhuga og þarfir þeirra. Nú bjóðum við upp á klúbbastarfsemi fyrir börn í 3. og 4.bekk. Í boði eru Tækniklúbbur, Ævintýraklúbbur, íþróttaklúbbur, Fótboltaklúbbur og klúbbur sem ber heitir Milli himins og jarðar. Krakkarnir skrá sig í einn eða fleiri klúbba sem þau hafa áhuga á.

Gæðastund

Hluti af starfinu í Krakkalandi fer fram fyrir hádegi. Krakkar í fyrsta og öðrum bekk fá tvo tíma á viku í frjálsan leik í húsnæði Krakkalands á kennslutíma/skólatíma. Þessi tími er kallaður Gæðastund og er til þess að bjóða upp á uppbrot frá venjulegum skóladegi, létta á frístund að skóladegi loknum og búa til meiri samfellu milli skólans og frístundar. Þar er lögð mikil áhersla á að efla félagsfærni barna og við notum bangsann Blæ í sérstökum umræðuhringjum þar sem við skiptumst á að tala um ákveðin viðfangsefni. Börnunum er skipt í tvo hópa og er annar hópurinn í húsnæði Krakkalands á meðan hinn hópurinn er íþróttasalnum. Gert er ráð fyrir að hópaskipting sé að mestu leyti eftir bekkjum til að efla bekkjarandann.

Gjald

Samræmt gjald er fyrir vist í Frístund í Kópavogi. Um er að ræða fjóra gjaldflokka og miðast þeir við eina, tvær, þrjár eða fjórar klst. á dag. 

Einstæðir foreldrar, námsmenn þar sem báðir foreldrar eru í fullu námi og öryrkjar með metna örorku 75% eða meira eiga rétt á að greiða lægra gjald. Námsmenn þurfa að framvísa vottorði til staðfestingar á námsárangri eftir hverja önn og er afsláttur leiðréttur eftir á fyrir hverja önn. Systkinaafsláttur er 30% af dvalargjaldi fyrir annað barn, en 75% af dvalargjaldi fyrir þriðja barn og 100% fyrir fjórða barn eða fleiri. Systkinaafsláttur gildir einnig ef yngra systkini er á leikskóla eða hjá dagforeldri (6 mánaða og eldra), gegn framvísun staðfestingar. Systkinaafsláttur reiknast af dvalargjaldi eldri systkina. Frá 1. janúar 2016 reiknast systkinaafsláttur einnig af lægra gjaldi.

Gjaldskrá frístunda má finna á heimasíðu Kópavogbæjar http://www.kopavogur.is/is/gjaldskra

Lægra gjald greiða einstæðir foreldrar, öryrkjar (75% örorka eða meira) og námsmenn (báðir foreldrar í námi)

Umsókn um Frístund

Umsóknir um frístund fer eingöngu fram í Íbúagátt (Opnast í nýjum vafraglugga) Kópavogsbæjar.

Í þeim tilvikum þar sem yngri systkini eru í vistun á stofnunum Kópavogsbæjar er nóg að skrá vistun yngri systkina í umsókn um systkinaafslátt í íbúagátt en ekki er þörf á frekari staðfestingu. Í þeim tilvikum þar sem yngri systkini eru á einkaleikskólum eða hjá dagforeldrum þá er nauðsynlegt að setja inn viðhengi með umsókn þar sem fram kemur staðfesting frá dagforeldri eða einkaleikskóla á viðkomandi vistun.Umsóknafrestur fyrir skráningar og breytingar er til 20. hvers mánuðs og mun taka gildi við næsta mánaðamót.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica