Skólareglur

Skólareglur

Forföll nemenda

Ritari tekur við skilaboðum um veikindi og önnur forföll nemenda frá kl. 07:45 dag hvern. Foreldrum ber að tilkynna veikindi daglega. Þurfi nemandi að fá leyfi lengur en í einn dag verður foreldri eða forráðamaður að ræða það við skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra.

Hegðun nemenda

Í Snælandsskóla hafa starfsmenn og nemendur valið lífsgildin fjögur: visku, virðingu, víðsýni og vinsemd til að hafa að leiðarljósi í samskiptum. Snælandsskóli er og á að vera notalegur og frjálslegur skóli með skýr mörk. Við viljum að nemendur hafi svigrúm, frelsi og áhrif en læri um leið að taka ábyrgð á eigin gjörðum. Að auka svigrúm og áhrif nemenda er ekki eftirlátsemi við reglur. Þegar við höfum valið okkur lífsgildi til að fara eftir er mikilvægt að bregðast við ef einhver vanvirðir það sem ákveðið hefur verið. Það er hlutverk þeirra fullorðnu í skólanum að fylgja þessu eftir með því að setja reglur sem styðja við gildin og viðurlög ef út af bregður.

Góður skólabragur tengist skólareglum

Flestir nemendur leitast við að hegða sér vel í skóla en samt sem áður er  nauðsynlegt að allir nemendur þekki þær leikreglur sem gilda í skólasamfélaginu. Góð hegðun nemanda er samofin skólareglum sem gilda í skólanum.

Góð hegðun nemanda í skóla:

 • Mætir stundvíslega í skólann, hefur það meðferðis sem honum ber og kemur vel undirbúinn.
 • Vandar öll vinnubrögð og frágang á verkefnum.
 • Fer vel með skólagögn og verðmæti sem honum er trúað fyrir.
 • Gengur vel um skólann sinn og umhverfi hans.
 • Hlýðir fyrirmælum og virðir verkstjórnarhlutverk starfsmanna.
 • Virðir skólareglur og aðrar samskiptareglur sem gilda í skólanum.
 • Leitast við að hafa stjórn á eigin hegðun, bæði í orðum og gjörðum.
 • Er tillitssamur og gerir sér far um að setja sig í spor annarra.
 • Leitast við að leysa úr ágreiningi sem upp kann að koma af skynsemi og án ofbeldis.
 • Virðir eignarrétt annarra.
 • Virðir það að línuskautar, reiðhjól, hlaupahjól og hjólabretti eru bönnuð á skólalóð á skólatíma.
 • Notar ekki gsm síma né önnur fjarskipta og hljómtæki í kennslustundum án leyfis kennara.

Óviðeigandi hegðun nemenda er þegar:

 • Nemandi hegðar sér ekki í samræmi við skólareglur og almennar kurteisi- og samskiptareglur.
 • Nemandi veldur með hegðun sinni truflun á skólastarfi og/eða vanlíðan hjá öðrum nemendum eða starfsfólki.

Ferli atburða og viðurlög ef út af bregður vegna hegðunar

 1. Viðkomandi kennari aðvarar nemanda einslega, skráir atburð í Mentor og lætur þar með foreldra/forráðamenn og umsjónarkennara vita.
 2. Brjóti nemandi ítrekað eða alvarlega gegn skólareglum, ræðir umsjónarkennari við nemanda og foreldra/forráðamenn. Skráð í Mentor.
 3. Ef enn situr við það sama vísar viðkomandi umsjónarkennari málinu til deildarstjóra sem kallar nemanda og foreldra/forráðamenn á fund um málið. Umsjónarkennari upplýsir Nemendaverndarráð um málið.
 4. Sé ástandið enn óviðunandi er málinu vísað til skólastjóra sem kallar nemanda og foreldra/forráðamenn á fund, þar sem farið er yfir málið og reynt að finna lausn mála.
 5. Reynist viðleitni skólastjóra árangurslaus er málinu vísað til fræðsluyfirvalda. Við þessar aðstæður er heimilt að vísa nemandanum úr skóla á meðan tekið er á málefnum hans.
 6. Foreldrar/forráðamenn eru látnir vita á öllum stigum málsins og það unnið í samvinnu við þá.  Í samræmi við ákvæði laga um stjórnsýslu er nemandanum og forráðamönnum tryggður andmælaréttur og viðurlög taki mið af jafnræðisreglu og meðalhófsreglu.

Samskipti og líðan

Nemendur koma úr mismunandi umhverfi og eru misjafnir að þroska, þegar í skóla kemur. Örar breytingar á samfélaginu hafa fært börn, meira en áður, úr hinum nánum tengslum við atvinnulífið og í heim hinna fullorðnu. Það hefur komið meira og meira í hlut skólans að kynna börnunum samfélagið. Skólinn verður að haga vinnubrögðum sínum í samræmi við þessa staðreynd.

Á milli nemenda, kennara og foreldra þarf að takast trúnaðarsamband. Skólinn á að láta sig varða samskipti nemenda og gera allt sitt til að líðan þeirra innan og utan skólans verði sem best og bregðast við vandamálum eins og einelti og einangrun. Miklu skiptir að í skólanum mæti nemendur hlýju og glaðlegu viðmóti ásamt festu og öryggi.

Í Snælandsskóla er lögð áhersla á samvinnu kennara á sem flestum sviðum.

Skólinn leggur mikla áherslu á að allir kennarar hvers árgangs vinni vel saman bæði að skipulagningu og vinnu. Til þess eru mynduð kennarateymi um hvern árgang. Í kennarateyminu eru umsjónarkennarar hvers bekkjar í viðkomandi árgangi, en aðrir kennarar eru kallaðir til eftir þörfum. Kennarateymið hittist a.m.k. einu sinni í viku á árgangafundi og þar fer fram innra skipulag kennslunnar. Þannig ætlast skólinn til ákveðins frumkvæðis frá kennurum og að ákveðin gagnrýnin umræða um námsefni og vinnubrögð fari reglulega fram.

Það eru m.a. þessi samskipti starfamanna innbyrðis og samskipti þeirra við nemendur sem móta skólabraginn. Til að forðast óþarfa árekstra þurfa samskiptareglur að vera skýrar, upplýsingamiðlun góð og verkaskipting ljós milli þeirra sem taka ákvarðanir.

Ekki er nóg að nemendum séu settar skólareglur heldur er nauðsynlegt að allir starfsmenn vinni eftir erindisbréfi eða starfslýsingu.

Ábyrgð, réttlæti og umburðarlyndi eru mikilvægir þættir í mannlegum samkiptum. Það þýðir þó ekki að öll gildi séu jafnrétthá. Skólinn er bundinn af gildum sem byggjast á lýðræði og kristilegu siðgæði. Þetta felur samt sem áður í sér frelsi til mismunandi skoðana, viðhorfa og vinnubragða. Gagnkvæm tillitssemi er lykilatriði í öllum mannlegum samkiptum.

Valdi nemandi óróa eða truflun í kennslu og láti ekki skipast við áminningu kennara er heimilt að taka hanna úr kennslustund og láta hann fást við önnur viðfangsefni.

Ítrekuð brot á reglum skólans geta leitt til brottvikningar úr skólanum um stundarsakir. Um meðferð alvarlegra eða endurtekinna agabrota vísast til reglugerðar um skólareglur í grunnskóla nr. 270/2000.

Vertu við aðra eins og þú vilt að aðrir séu við þig!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica